Hver er staðan á gaskútnum fyrir sumarið?
Í samstarfi við heimkaup bjóðum við nú upp á 10kg. smellu eða skrúfu gaskúta í heimsendingu.
Þú getur pantað nýjan kút eða áfyllingu og við sækjum tóma kútinn þegar við afhendum nýja. Kíktu hér inn á www.heimkaup.is/orkan og græjaðu málin.
Pantaðu kútinn þinn og nýttu orkuna í önnur mál.
Við hvetjum viðskiptavini til að taka þátt í stóra plokk deginum þann 24.apríl.
Verið velkomin að skila plokkinu í glærum ruslapokum til okkar á valdar Orkustöðvar. Við verðum með gáma í Orkunni Suðurfelli, Kleppsvegi, Dalvegi og Suðurströnd.
Orkan hyggst breyta bensínstöð sinni í Fellsmúla í öfluga hleðslustöð fyrir rafknúin ökutæki. Hleðslustöðin verður rekin í samstarfi við ON og er gert ráð fyrir að hún hefji starfsemi fyrir lok ársins 2023. Rekin hefur verið bensínstöð á þessum stað í Fellsmúla allt frá árinu 1971 en það eru yfirvofandi orkuskipti og loftslagsstefna Reykjavíkurborgar, sem kveður á fækkun bensínstöðva, ásamt framtíðarstefnumörkun og vistvænum áherslum Orkunnar sem leiddu til þessarar ákvörðunar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vífill Ingimarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar, og Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Orku náttúrunnar, undirrituðu samkomulag þessa efnis í dag.
Vífill Ingimarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar: „Sú mikla ánægja sem hefur verið með hleðslustöðvarnar á stöðvum Orkunnar er okkur hvatning til að halda áfram á þessari braut. Við vitum að rafbílum fjölgar nú hratt, þeir voru meira en helmingur seldra bíla á síðasta ári. Þetta þýðir að fjölga þarf hleðslustöðvum og Orkustöðvarnar eru vel staðsettar nærri stofnbrautum og því vinsælar hjá ökumönnum. Borgin hefur kynnt áherslur sínar um að fækka bensínstöðvum innan borgarmarkanna og sú stefna fer vel saman við okkar áætlanir um að vera lykilaðili í orkuskiptunum, í samvinnu við ON. Ég vil þakka þeim og Reykjavíkurborg fyrir gott samstarf í þessu verkefni.“
Orkan hefur nú þegar fækkað um eina dælu á stöðinni í Fellsmúla og er þar nú aðeins ein dæla sem getur dælt eldsneyti í tvo bíla samtímis. Orkan mun halda áfram að þróa þjónustunet sitt á höfuðborgarsvæðinu og verður ný Orkustöð tekin í gagnið við Lambhagaveg í Úlfarsárdal á næstu tveimur árum samhliða breytingunni í Fellsmúla.
Samstarf Orkunnar og Orku náttúrunnar hófst árið 2017. Í dag má finna hleðslustöðvar frá ON á átta Orkustöðvum, þrjár í Reykjavík og fimm á landsbyggðinni en stefnt er að fjölgun þeirra samhliða orkuskiptum bílaflotans.
„Við hjá Orku náttúrunnar fögnum auðvitað þeirri þróun að bensínstöðvum sé að fækka og hleðslustöðvum að fjölga. ON hefur verið leiðandi í orkuskiptunum allt frá því að við settum upp fyrstu hleðslustöðina hér á landi og þetta er rökrétt skref á þeirri vegferð. Við höfum átt gott samstarf við Orkuna og vonandi mun þessi þróun halda áfram.“ segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Orku náttúrunnar.
„Ég er mjög ánægður með þessa þróun. Hér eru að koma hleðslustöðvar fyrir rafbíla í stað jarðefnaeldsneytis. Með þessu erum við að færast nær grænni framtíð. Borgin beitir samningum og grænum hvötum til að ná markmiðum í loftslagsmálum og þéttingu byggðar sem þýðir að íbúðahverfin eflast og lífsgæði íbúanna batna,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Orkan afhenti Rauða krossinum í dag 3 milljónir króna sem söfnuðust á sérstökum söfnunardegi á Orkustöðvunum í mars þegar fimm krónur af hverjum lítra runnu til hjálparstarfs í Úkraínu.
Allt fjármagn sem Rauði krossinn fær verður nýtt til að mæta þörfum íbúa Úkraínu og veita neyðarþjónustu eins og að tryggja aðgengi að mat, vatni, heilbrigðisþjónustu, húsaskjóli og veita sálrænan stuðning bæði í Úkraínu og nágrannalöndum en fjármagnið nær einnig yfir hjálparstarf fyrir flóttafólk á Íslandi.
„Við viljum leggja okkar af mörkum og styðja á þennan hátt við mikilvægt hjálparstarf Rauða krossins. Viðskiptavinir okkar brugðust vel við og erum við þeim afar þakklát fyrir að taka þátt í verkefninu. Við vonumst til að styrkurinn muni koma að góðum notum.” segir Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar.
„Það er gott að finna hlýhug fólks vegna ástandsins í Úkraínu og við erum mjög þakklát Orkunni og viðskiptavinum þeirra fyrir þetta mikilvæga framlag til að aðstoða fólk sem á um sárt að binda og hefur þurft að flýja heimili sín. Framlög sem þessi gera okkur kleift að sinna okkar starfi, hér á landi sem og erlendis “ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Á mynd, frá vinstri: Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar, Jóhanna Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Orkunni, og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Þann 10.mars gefur Orkan fimm krónur af hverjum lítra sem dælt er til hjálparstarfs Rauða krossins í Úkraínu. Þetta gildir um alla lítra á öllum stöðvum óháð greiðslumáta. Rauði krossinn sinnir mannúðaraðstoð og veitir sálrænan stuðning fyrir þolendur átakanna í Úkraínu.
„Við viljum leggja okkar af mörkum og styðja á þennan hátt við hjálparstarf Rauða krossins. Við vonumst til að styrkurinn muni koma að góðum notum og viðskiptavinir okkar velji að leggja málefninu lið með því að dæla í dag því Orkan gefur 5 kr. af hverjum seldum lítra.”segir Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar.
Allt fjármagn sem Rauði krossinn fær verður nýtt til að mæta þörfum íbúa Úkraínu og veita neyðarþjónustu eins og að tryggja aðgengi að mat, vatni, heilbrigðisþjónustu, húsaskjóli og veita sálrænan stuðning bæði í Úkraínu og nágrannalöndum.
„Á meðan atburðirnir eru sorglegir þá fyllist maður þakklæti fyrir hvað fyrirtæki og einstaklingar eru tilbúnir að aðstoða og taka þátt í að koma fólki á flótta til hjálpar. Við hjá Rauða krossinum erum afskaplega þakklát fyrir framtakið og stuðninginn frá Orkunni og viðskiptavinum þeirra.“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.