Votlendissjóður og landeigendur vinna nú að því að fá alþjóðlega vottun fyrir kolefniseiningar en í nýlegri tækniforskrift um kolefnisjöfnun er lögð aukin áhersla á að einingar séu vottaðar af þriðja aðila. Þar sem landeigendur bíða eftir vottuninni hefur sjóðinn vantað jarðir til þess að endurheimta votlendi á. Stjórn Votlendissjóðs hefur þess vegna ákveðið að draga úr rekstri sjóðsins þar til vottunin er tilbúin. Þ.e. bíða með framkvæmdir og þar af leiðandi sölu á kolefniseiningum. Votlendissjóður heldur þó áfram að taka við upplýsingum um jarðir frá landeigendum sem eru áhugasamir um endurheimt votlendis, þ.e. minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, eflingu fuglalífs og lífs í vötnum og ám og/eða sölu á alþjóðlega vottuðum kolefniseiningum – til þess að geta byrjað af krafti aftur um leið og vottunin er komin í höfn. Tímaáætlun Eflu, verkfræðistofu, gerir ráð fyrir að vottunarferlinu ljúki á seinni hluta þessa árs.